154. löggjafarþing — 75. fundur,  20. feb. 2024.

mat á endurskoðun laga um Menntasjóð námsmanna.

577. mál
[15:55]
Horfa

Berglind Ósk Guðmundsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Áskoranir í menntakerfinu eru fjölmargar. Á háskólastigi skortir okkur fjölbreyttari hópa í fjölbreyttara nám. Við viljum fjárfesta í menntakerfinu, samfélaginu öllu til heilla, því að menntakerfið er besta verkfærið sem við höfum til að tryggja jöfn tækifæri. Við þurfum að fjárfesta í menntun og nemendum og Menntasjóðurinn er gríðarlega stór hluti þessa kerfis, lykilhluti í púslinu stóra.

Við stöndum frammi fyrir því að viljinn til að taka námslán er ekki mikill. Nemendur vilja ýmist ekki safna skuldum og horfa því ekki til Menntasjóðsins sem verkfæris til að tryggja sér framfærslu meðan á námi stendur. Þar með er markmiði með sjóðnum kannski ekki náð en ég er gríðarlega ánægð með að við eigum þessa umræðu hér í dag, að mér skilst að frumkvæði hæstv. háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur. Menntamálin eiga auðvitað að skipa stærri sess í samfélagslegri umræðu og ekki bara þegar eitthvað bjátar á, eitthvað neikvætt kemur upp í umræðunni. Við eigum alltaf að vilja ræða menntamálin og við viljum alltaf gera betur.

Nemendur eru auðvitað gríðarlega stór hópur í okkar góða samfélagi og er jafn ólíkur og þau eru mörg. Það eru því mismunandi áherslur hjá mismunandi hópum eins og hæstv. ráðherra fór vel yfir. Sumir vilja ekkert frítekjumark, aðrir vilja fasta lága vexti, aðrir vilja hærri grunnframfærslu. Ég fagna því að hæstv. ráðherra tali með þeim hætti að við leitum að hinum gullna meðalvegi, einmitt vegna þess að við viljum sem fjölbreyttastan hóp í nám og því þurfum við fjölbreyttar leiðir til að ná því markmiði. Ég vil þó slá hér þann varnagla að þær aðgerðir sem gripið verður til verði ekki til þess að flækja kerfið. Kerfið er nú þegar allt of flókið og ég ætla að fá að koma aðeins að því seinna. Leggja verður áherslu á að kerfið verði skilvirkara, gagnsærra og ekki eins þungt í vöfum, leggja þarf áherslu á stafræna ferla því að það er eiginlega alveg ótrúlegt að námslánakerfið og ferlið allt í heild sé ekki orðið að fullu stafrænt.

Þessi skýrsla sýnir okkur að á einhvern hátt hafi markmiði með lögunum ekki verið náð. Það er vont að færri hafi tekið námslán en áætlanir hafi verið um og enn þá verra að færri nýti sér námsstyrki sem var stóra jákvæða breytingin sem kom með nýja kerfinu. Styrkirnir eru ekki að virka. Námsframvindukrafan er of þröng. Hér þarf að búa til miklu meiri sveigjanleika í kerfinu, sérstaklega þar sem yngri námsmenn og þeir sem eru að sækja í nám í dag eru í auknum mæli að setja nám sitt saman úr ólíkum brautum og styrkjakerfið nær ekki til þeirra einstaklinga. Styrkjaleiðin átti að vera hvatinn í íslensku námslánakerfi.

Íslenskir nemendur eru í alþjóðlegum samanburði mun lengur í námi en aðrir. Ekki er hægt að segja með vissu að þessi markmið hafi náðst með þessu kerfi af því að kerfið er svo nýtt, en það hversu fáir hafa nýtt sér styrkjakerfið er vísbending um þetta.

Það kemur fram í kröfum stúdenta að kerfið þurfi líka að verða ögn manneskjulegra. Krafan um að endurgreiða framfærslulánið er fullharkaleg ef eitthvað kemur upp á og nemandi klárar ekki tilskilinn einingafjölda. Nefndu stúdentar t.d. dæmi um kröfuna um að klára 75% eininga, en segjum sem svo að þú klárir bara tvo þriðju, eða 66%, þá ber þér að endurgreiða og það innan skamms tíma. Við vitum alveg hvaða svigrúm námsmenn hafa til að endurgreiða nokkra hundraðþúsundkalla á skömmum tíma. Það er væntanlega ekki mikið. Þetta veldur því eflaust miklum kvíða hjá námsmönnum og hér megum við eflaust skoða hvort gera megi betur, hafa sveigjanlegri endurgreiðslu eða sveigjanlegri tímamörk, aðeins að vera manneskjulegri. Það vekur athygli að yngra fólk, sem Menntasjóðurinn ætti helst að höfða til, tekur námslán í minna mæli.

Eitt gríðarstórt atriði, eins og ég kom inn á áðan í þessari umræðu, er kostnaður við kerfið. Það er til mikils að vinna að ná honum niður en 20% af öllum framlögum ríkisins við námsaðstoð fara í yfirbygginguna og regluverkið. Það er virkilega vont að fjármagn sem annars færi í að styðja við námsmenn fari í að halda utan um umfangsmikinn rekstur sjóðsins. Þar sem við erum alltaf að tala um forgangsröðun fjármuna myndi ég telja að þetta eigi að vera ansi framarlega í goggunarröðinni, að leysa þessa fjármuni úr læðingi með því að einfalda ferla og regluverkið um sjóðinn.

Þá er orðið flóknara, eins og stendur í skýrslunni, að rýna í fjármagnsskipan Menntasjóðs þar sem flækjustigið hefur aukist til muna. Það er auðvitað ekki gott mál að rekstrarkostnaður sjóðsins hafi ekki lækkað þrátt fyrir að lántökum hafi fækkað. Það kemur fram í þessari skýrslu að ekki sé hægt að hagræða innan þeirra reglna sem nú eru í gildi, handavinna við nýja kerfið og flækjustigið við úthlutun lána og yfirferð á réttindum námsfólks er það mikið. Endurskoðun laga ætti því fyrst og fremst að fela í sér einföldun á regluverkinu, einföldun á kerfinu. Svo þarf auðvitað að grípa inn í kerfið til að bregðast við vaxtaumhverfinu eins og það leggst harkalega á nemendur í verðbólgunni í dag. Lánþegar búa við gríðarlega óvissu um þróun á greiðslubyrði sinni sem hlýtur að endurspeglast í því hve fáir sjá það sem raunhæfan kost að taka námslán. Stúdentar mótmæla svo harðlega vaxtaálaginu, sem ég skil vel, og það verður að svara þeirri spurningu hvort sanngjarnt sé að leggja á herðar stúdenta byrðarnar af áföllum námslána. Það verður auðvitað að skoðast í heildarsamhenginu en ég tel að þessu verði stjórnvöld að svara.

Hæstv. ráðherra nefndi mikilvægi fjarnáms og mig langar að fara svolítið út í þá sálma á forsendum þessarar umræðu um Menntasjóðskerfið í dag. Við þurfum að eiga hreinskilið samtal um samspil aukins framboðs fjarnáms og mikillar atvinnuþátttöku nemenda. Erum við hugsanlega að ýta á eftir frekara fjarnámi í háskólum landsins til þess að ýta undir frekari atvinnuþátttöku nemenda? Öflugt fjarnám er auðvitað gríðarlega mikilvægt verkfæri til að efla menntunarstig íbúa á landsbyggðinni. Ég er og verð alltaf talsmaður öflugs fjarnáms sem verkfæris til að ná til þeirra sem búa í dreifðari byggðum. Við vitum það, rannsóknir sýna það, að nemendur sem læra í heimabyggð eru líklegri til að festa búsetu þar. Því er til mikils að vinna, viljum við halda blómlegri byggð um landið allt. Það vil ég svo sannarlega. En staðreyndin er sú að stór hluti, jafnvel meiri hluti, þeirra sem sækja fjarnám í háskóla á landsbyggðinni eru íbúar á höfuðborgarsvæðinu. Er ekki eitthvað skakkt við þá mynd?

Viðhorf til vinnu með námi er svo ein áskorunin. Að baki því liggja eflaust fleiri en ein skýring en má þar nefna að nemar vilja almennt ekki skuldsetja sig. Námslánakerfið er ekki sá kostur sem nemendur horfa til til að sinna námi sínu af alúð. Við vitum að nám krefst tíma og athygli. Aukin vinna bitnar á námsframvindu og námsframmistöðu. Það skiptir máli hvort um er að ræða fulla vinnu eða hlutavinnu en stúdentar hafa sýnt fram á með rannsóknum að þarna munar miklu hvort um sé að ræða vissar klukkustundir á viku, hvernig það hefur áhrif á námsframmistöðuna og það er mikilvægt að rýna í þau gögn. Erum við kannski svolítið upptekin í lífsgæðakapphlaupinu, við verðum að gera allt, að fólki finnst raunverulega raunhæft að vera í fullu námi, í fullri vinnu og jafnvel með börn? Er umgjörðin okkar um háskóla að styðja við ungt fólk til að fara í háskóla, til að vera í háskóla, að njóta þess að vera í háskóla, að vera hluti af námssamfélaginu sem er svo gríðarlega stór þáttur í þroskaferli einstaklings? Námssamfélagið er auðvitað bara svo stór hluti af náminu. Þar verður tengslanetið til, framtíðarstarfsmöguleikar jafnvel, og möguleikinn á því að finna sitt eigið áhugasvið utan kennslunnar.

Ég ætla kannski að láta staðar numið hér áður en ég fer í frekari heimspekilegar pælingar um fjarnámið og menntakerfið í heild sinni. En ég vil hvetja hæstv. ráðherra til dáða í þessari endurskoðun á lögunum og trúi því að hér verði hægt að búa svo um hnútana að Menntasjóður verði raunverulega til þess að hér verði jöfn tækifæri til náms, að við útskrifum fleiri stúdenta, að við styðjum betur við drengina okkar, að við tökum betur á móti innflytjendum og fólki með ólíkan bakgrunn, að við eflum samkeppnishæfni Íslands á alþjóðlegum vettvangi, t.d. á sviði rannsókna. Ég trúi því að Ísland geti verið fremst í flokki þegar kemur að háskólamálum. Menntasjóður, eins og ég sagði í upphafi, er gríðarstór biti í þessu risastóra púsli.